Hvað eru auðlindir?

Fumarole_im_Feld_Namafjall_Hverir_6035

Jarðrænar auðlindir í eigu ríkisins falla undir verksvið Ríkiseigna. Mikil verðmæti geta falist í auðlindum en til jarðarænna auðlinda telst t.d. vatnsafl, jarðhiti, ferskvatn, möl og önnur jarðefni.

Samkvæmt jarðalögum eru hlunnindi á jörðum skilgreind eftirfarandi: „Hlunnindi merkja í lögum þessum hvers konar auðlindir, nytjar aðrar en grasnytjar, lífræn og ólífræn efni og efnasambönd, villt dýr, plöntur, annað lífríki og önnur nýtanleg réttindi sem fylgja jörð.“

Á starfandi löggjafarþingi 2018 - 2019 hefur verið lögð fram tillaga nokkra þingmanna til þingsályktunar um skilgreiningu auðlinda: Tillagan á heimasíðu Alþingis 

Í þingsályktuninni er áhugaverð samantekt á mismunandi gerðum auðlinda ásamt tillögu um hvað gæti fallist undir hugtakið auðlindir. 

 

Umsýsla auðlinda

Foss1

Með ábúð ríkisjarða fylgja yfirleitt mikil réttindi og þeir aðilar sem eru með ábúðarsamninga njóta þá hlunninda eins og veiðiarðs í ám og vötnum, hreindýraarðs, reka og æðarvarps.  Einnig hafa þeir ákveðinn rétt til að nýta vatnsafl í litlar virkjanir ásamt því að hafa rétt til að nýta jarðvarma og möl til heimilisnota. Algengast er að auðlindir tilheyri þeim sem landið á. 

Það er nú verkefni Ríkiseigna fyrir hönd fjármála- og efnahagsráðuneytisins að semja um endurgjald (leigu) fyrir afnotarétt réttinda undir yfirráðum ríkisins, þó ekki innan þjóðlendna.

Umsækjandi þarf að óska eftir leyfi til rannsókna og nýtingar á auðlindum og sér Orkustofnun um slíkar leyfisveitingar. Ríkiseignir, í umboði fjármála- og efnahagsráðuneytisins sem landeigandi, hafa samt svigrúm til að heimila hagnýtingu auðlinda á ríkisjörðum til heimilis- og búsþarfa ábúenda. 

Í auðlindaumsýslu felst m.a. samningagerð um endurgjald fyrir nýtingu auðlinda í eigu eða á forræði ríkisins. 

 

Verkefni

SjorVið ákvörðun auðlindagjalds er rétt að taka tillit til þess hve miklu þarf að kosta til að geta nýtt viðkomandi auðlind, svo sem við virkjanagerð til að virkja fossa eða borholur eftir heitu vatni.  

Vatnsafl

Mikil fjárfesting fylgir almennt virkjunarframkvæmdum. Eignarréttur vatnsafls er gjarnan sameign margra, að hluta til skýrist það af því að ár og lækir eru oft landamerki jarða og því eiga aðliggjandi jarðir í flestum tilfellum réttinn í sameiningu og löng vegalengd árfarvegs. 

Jarðhiti 

Þegar leggja skal mat á verðmæti jarðhitaauðlindar þarf m.a. að taka tillit til magns og hitastigs og þess hve miklu þarf að kosta til að geta nýtt auðlindina.  Kostnaður við borholur, hreinleikinn, þ.e. útfellingar og tæring eru þættir sem geta skipt sköpum.  

Kalt vatn 

Allir þurfa drykkjarvatn og þ.a.l. er verið að nýta um allt land vatn úr vötnum, ám, lækjum, lindum og borholum.  Auk neysluvatns sem einstaklingar afla sér, eru sveitarfélögin með almenningsveitur, fiskvinnslan og ýmis iðnaður notar mikið vatn og á síðustu árum er vatnsútflutningur vaxandi atvinnugrein  Þessi auðlind mun án efa skipta þjóðina miklu máli í framtíðinni og áhugi á að nýta hana til útflutnings fer vaxandi. 

Jarðefni 

Samkvæmt jarðalögum merkir hugtakið jarðefni öll gosefni og önnur steinefni, málma, málmblendinga og málmsteindir, kol, jarðolíu, jarðgas og önnur nýtanleg efni sem finnast í jörðu. Mikilvægustu nytjar hafa verið möl og grjót af ýmsu tagi, en þó eru til samningar um fleira, s.s. samningagerð um rannsóknir eftir vinnslu gulls í Þormóðsdal.