Ársskýrsla 2020

Ársskýrsla Ríkiseigna 2020

Árið 2020 var ár áskorana og aðlögunar í starfsemi Ríkiseigna. Takmarkanir vegna heimsfaraldurs gerðu fyrst vart við sig í mars mánuði og var það aðdáunarvert hversu fljótt og vel starfsfólk brást við bæði í einkalífi og starfi með dugnaði, elju og jákvæðni.

Farið var í auknar framkvæmdir um mitt ár vegna sérstaks fjárfestingarátaks stjórnvalda til að sporna gegn samdrætti í hagkerfinu sökum heimsfaraldursins. Það var mikil áskorun að ráðast í þessar viðbótafjárfestingar með svo stuttum fyrirvara sem námu um 1,6 milljarði króna en með öflugum og samstilltum mannauð að vopni og góðu skipulagi þá gekk verkefnið vel.

Innleiðing á straumlínustjórnun, uppsetning gæðakerfis, rafrænar lausnir, græn skref og stytting vinnuviku eru dæmi um verkefni sem einnig var unnið að með góðum árangri.

Heilt yfir þá var árið gott og við stolt að fá að taka þátt í að styðja við atvinnulífið eins og okkur var falið með fjárfestingarátakinu. Það átak heldur áfram á þessu ári en þá munu Ríkiseignir ráðstafa um tveimur og hálfum milljarði í fjárfestingar og verkefni sem dreifast um alla landsbyggðina.

Hafin er vinna á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytisins að skoða sameiningu Ríkiseigna og Framkvæmdasýslu ríkisins með það markmið að mynda eina heildstæða framkvæmda- og eignaumsýslustofnun.

Ég er bjartsýn á framtíðina og hlakka til að vinna að þeim áskorunum og verkefnum sem liggja fyrir á þessu ári.

Sólrún Jóna Böðvarsdóttir

Framkvæmdastýra