Jafnréttisáætlun

Jafnréttisáætlun Ríkiseigna er gerð með vísan í lög nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Í áætluninni felst að:

Konur og karlar skulu njóta sömu kjara fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf. Með kjörum er átt við almennar launagreiðslur fyrir störf, auk frekari þóknana, beinna og óbeinna. Einnig skulu þau njóta sömu kjara hvað varðar lífeyris-, orlofs- og veikindarétt og hvers konar önnur starfskjör eða réttindi sem metin verða til fjár. Launaákvarðanir skulu taka mið af umfangi og ábyrgð starfa sem geta verið ólík en jafnverðmæt. Þær mega ekki fela í sér kynjamismun og mismunandi kjarasamningar réttlæta ekki kynbundinn launamun.

Ávallt skal ráða þann hæfasta til starfa og skulu jafnréttissjónarmið metin til jafns við önnur sjónarmið. Stofnunin mun gæta þess að einstaklingum verði ekki mismunað við úthlutun verkefna eða við tilfærslu í störfum.

Konur og karlar skulu njóta sömu möguleika til endurmenntunar og starfsþjálfunar og til að sækja námskeið sem haldin eru í því skyni að auka hæfni í starfi. Haldin skal skrá um hverjir fara á námskeið og hvaða námskeið.

Bæði kynin njóti sömu möguleika til að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf. Starfsmönnum skal einnig gert kleift að minnka við sig vinnu tímabundið vegna fjölskylduábyrgðar eftir því sem unnt er, svo sem vegna umönnunar barna og sjúkra fjölskyldumeðlima. Starfsmenn skulu eiga möguleika á hlutastarfi og sveigjanlegum vinnutíma eftir því sem aðstæður leyfa.

Framkvæmdastjóri ber ábyrgð á að einstökum ákvæðum jafnréttisáætlunar og jafnréttislaga sé framfylgt.